ÍSAT

Skólahreystimeistarar 2017

Lið okkar Síðuskóla vann lokakeppnina í Skólahreysti sem sýnd var í beinni útsendingu í kvöld á RÚV. Þessir frábæru krakkar eru vel að sigrinum komnir og stóðu sig allir með glæsibrag. Guðni Jóhann og Eygló kepptu í upphýfingum, dýfum, armbeygjum og hreystigreip og Ragúel og Embla Dögg fóru hraðabrautina og slógu íslandsmet til margra ára. Þá má ekki gleyma varamönnunum þeim Unnari og Huldu Karen sem hafa æft af kappi og verið klár að hlaupa í skarðið en keppandi þarf einhverra hluta vegna að draga sig í hlé. Þessi frábæri hópur hefur í vetur æft af kappi ásamt fleiri nemendum undir stjórn íþróttakennaranna Eddu, Rainers og Veroniku. Hamingjuóskir til okkar allra og hjartans þakkir til íþróttakennara og keppenda.
Lesa meira

Söngkeppni Síðuskóla 2017

Í morgun var Söngkeppni Síðuskóla haldin í annað sinn. Að þessu sinni voru átta atriði sem kepptu um titilinn. Nemendum frá 5. – 10. bekk stóð til boða að keppa og voru nemendur frá þeim bekkjum áhorfendur. Keppnin var hörð en að lokum stóð Klara Fönn Arnedóttur í 7. bekk uppi sem sigurvegari, hún söng lagið Ást eftir Ragnheiði Gröndal. Ína Soffía Hólmgrímsdóttir varð í öðru sæti, en hún söng lagið Silhouette. Hópur stúlkna úr 10. bekk urðu svo í 3. sæti en þær fluttu Nínu eftir Eyjólf Kristjánsson. Þetta var skemmtileg keppni og stóðu keppendur sig með stakri prýði. Hér með fréttinni fylgir svo mynd af Klöru með viðurkenningarskjal að keppni lokinni.
Lesa meira

6. bekkur í Danmörku

Ferð 6. bekkjar til Danmerkur gengur í alla staði vel. Það er búið að fara með hópinn víða í kring um Ryomgård, vinna fjölbreytt verkefni, syngja skólasönginn á söngsal fyrir alla nemendur skólans og ýmislegt fleira. Danirnir hafa skipt börnunum í 4 hópa sem vinna meira og minna saman í öllum verkefnum sem þau fara í. Hóparnir eru merktir eftir litum og er mjög þægilegt að halda utan um þessi 100 börn þannig. Í gær heimsóttum við Fjordcentret þar sem krakkarnir glímdu við allskonar útiverkefni. Þar prófuðu allir að veiða á stöng, kveikja eld án eldfæra og notuðu til þess m.a. nornahár og timbur. Allir fóru líka í vöðlur og veiddu allskonar smádýr til að setja í tjörnina hjá þeim og skutu úr ótrúlega skemmtilegri vatnsfallbyssu.  Myndir frá Fjordcentret.
Lesa meira

100 miða leikur og fleiri viðurkenningar

Fimmtudaginn 30. mars voru nemendur kallaðir á sal að morgni dags. Tilefnið var að útnefna þá 10 sem dregnir höfðu verið út í 100 miða leiknum sem er árviss leikur í tengslum við SMT skólafærni. Þeir nemendur fóru síðan með stjórnendum í bogfimi og gerðu sér glaðan dag og gengu svo í ísbúð þar sem allir fengu ís. Svo skemmtilega vildi til að daginn áður sigrðari lið Síðuskóla Norðurlandsriðilinn í Skólahreysti svo það var svo sannarlega tilefni til að hylla sigurliðið og gefa þeim gott klapp og blóm. Þá fékk Axel Máni í 4. bekk viðurkenningu í teiknisamkeppni MS og fékk gott klapp frá skólafélögum. Hér má sjá myndir.
Lesa meira

Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk 2017

Á dögunum fór fram lokahátið stóru upplestrarkeppninnar í Hólum, hátíðarsal Menntaskólans á Akureyri. Þar lásu fulltrúar Síðuskóla, þær Írena og Klara og stóðu sig í alla staði afar vel. Þær voru valdar sem fulltrúar skólans eftir lestarkeppni innan árgangsins sem haldin var nokkru áður. Myndir
Lesa meira

Skólahreysti

Miðvikudaginn 29. mars nk. var keppt í Norðurlandsriðli í Skólahreysti í Íþróttahöllinni. Við áttum þar lið og titil að verja frá því í fyrra þegar við sigruðum riðilinn. Það gerðum við aftur í þetta sinn. Liðið okkar í ár er firnasterkt en það skipa þau Guðni, Eygló, Hulda Karen, Ragúel, Embla og Unnar. Við hvöttum nemendur til að klæðast rauðu þennan dag sem er okkar litur :)   Áfram Síðuskóli! Hér má sjá myndir úr keppninni. Fleiri myndir. Enn fleiri myndir. Og enn meira.
Lesa meira

Símalausar frímínútur

Þann 13. - 24. febrúar sl. voru símalausar frímínútur hjá 7. - 10. bekk í Síðuskóla. Þetta var hugmynd sem kom frá nemendum sjálfum og nemendaráð útfærði í samráði við Helgu Dögg kennara í janúar. Framkvæmdin var þannig að í 9:20-9:45 frímínútunum var áherslan á tækjalaus samskipti nemenda í gegnum leiki, skák, íþróttir, spjall, spil og fleira. Bekkirnir tóku sjálfir ábyrgð á afþreyingunni á ákveðnum svæðum, 7. og 8. bekkur tók ábyrgð á íþróttasalnum, 9. bekkur sá um matsalinn og 10. bekkur um unglingaganginn. Nemendur höfðu hitt íþróttakennara skólans sem hjálpuðu til að að skipuleggja dagskrá fyrir alla dagana, þ.e. hvað var í boði en það var breytilegt eftir dögum þannig að allir fyndu eitthvað við sitt hæfi. Í matsalnum var boðið upp á spil og spjall og var fjölbreytt úrval af spilum sem nemendur höfðu aðgang að. Á unglingagangi var boðið upp á að lesa og lita og í einni stofunni var boðið upp á skák. Enginn var neyddur til að taka þátt og þeir sem kusu frekar að vera í sínum tækjum gátu gert það í einni stofu á unglingagangi. Verkefnið heppnaðist vel, afþreyingunni var vel tekið og nýttu margir sér það að geta spjallað án truflunar snjalltækja í frímínútum. Ákveðið var að halda upp á vel heppnað verkefni og var 7. – 10. bekk boðið í kakó og skúffuköku sem nokkrar stúlkur úr 9. og 10. bekk bökuðu, í frímínútum í morgun. Þar var m.a. rætt hvernig til tókst og hvort ekki sé ástæða sé til að endurtaka leikinn fljótlega. Myndin sem fylgir fréttinni var tekin við það tækifæri.
Lesa meira

Útivistardagur í dag

Nú höldum við í Hlíðarfjall í dag. Veður er gott og vonandi lætur sólin sjá sig. Þá er bara að klæða sig vel og hafa með sér hollt og gott nesti.
Lesa meira

Útivistardagur í Hlíðarfjalli

Fimmtudaginn 16 mars er fyrirhugaður útivistardagur í Hlíðarfjalli. Þá fara allir nemendur skólans með rútu í Hliðarfjall að morgni og koma til baka kringum hádegi. Þeir sem eru í 6. bekk og eldri mega vera lengur með skriflegu leyfi foreldra. 
Lesa meira

Hreinsun á skólalóð

Í gær fóru nokkrir nemendur í sérdeild út og snyrtu umhverfið í kringum skólann. Ekki skemmdi fyrir hversu gott veðrið var og nutu allir útiverunnar. Á myndinni má sjá nemendur og kennara þeirra, þær Jóhönnu Jessen og Sigrúnu Birnu.
Lesa meira