Fréttir

Litlu jól Síðuskóla 2024

Litlu jól skólans voru í dag og áttu nemendur og starfsfólk notalega stund saman. Nemendur í leiklistarvali á miðstigi fluttu jólaleikrit og nemendur í 2. bekk sungu tvö jólalög. Að lokum var dansað í kringum jólatréð.

Hér má sjá myndir frá því í morgun.
Lesa meira

Hin árlega spurningakeppni unglingastigs fór fram í dag

Hin árlega spurningakeppni í 8.-10. bekk fór fram í dag, 19. desember. Allir þátttakendur stóðu sig með prýði en það var lið 8. bekkjar sem stóð uppi sem sigurvegari. Í liðinu voru þau Hlynur Orri, Karen Emilía og Snorri Karl.  Hér eru nokkrar myndir frá keppninni.

 

Lesa meira

Jólasöngsalur - stuð og stemning

Mikið stuð var í morgun á jólasöngsal. Nemendur og starfsmenn mættu sparibúin eða í einhverju jólegu til að auka á jólastemninguna sem er farin að færast um öll húsin. Skreytingar smám saman að koma upp og verður gaman þegar allar hurðir eru orðnar skreyttar fyrir hina árlegu jólahurðasamkeppni.

Sjá myndir hér.

Lesa meira

Jólabókasafn Síðuskóla

Desember er skemmtilegur mánuður á bóksafni Síðuskóla því þá fyllist það af nýjum bókum sem koma út fyrir jólin. Allir bekkir koma í heimsókn og lesin er jólasaga eða ný bók fyrir þau. Jólaóskabækur Síðuskóla eru þær bækur sem nemendur völdu sjálf uppúr Bókatíðindum í nóvember og er nú komið í ljós hverjar voru vinsælastar hjá hverjum árgangi. En einnig rata margar bækur á safnið sem voru á óskalista hvers árgangs þannig það allir ættu að finna eitthvað sem þeim þótti áhugavert í ár. Foreldrafélag Síðuskóla styrkti einnig myndarlega við bókakaup einsog undanfarin ár sem munar miklu og er afar ánægjulegt. Jólalesturinn á bókasafninu er einnig orðinn árlegur og er afar notalegt að hlusta á skemmtilega sögu og þá byrjunina á spennandi bók sem mun svo kannski leynast undir jólatrénu.

Jólabókasafnið - sjá myndir hér.

Lesa meira

Jólaföndurdagur

Í dag var jólaföndurdagur hjá okkur í skólanum. Margt skemmilegt var föndrað og búið til, bæði jólakort og jólaskraut. Nemendur fengu svo heitt kakó í frímínútum. Hér má sjá myndir frá þessum skemmtilega degi.

Lesa meira

Síðuskóli - Réttindaskóli UNICEF

Í dag varð Síðuskóli Réttindaskóli UNICEF við hátíðlega athöfn í íþróttasal skólans. Allir nemendur og starfsmenn voru saman komin á sal til að hlýða á dagskrána í tilefni dagsins. Söngur og ræður nemenda og gesta gerðu stundina í senn skemmtilega og  fróðlega. Ólöf Inga skólastjóri setti athöfnina. Sigurbjörg í 9. bekk kynnti og stjórnaði dagskránni. Fyrst sungu allir saman skólasöng Síðuskóla, svo sungu 4. bekkingar lagið um vináttuna. Fulltrúar úr réttindaráði sögðu nokkur orð, en það voru Óliver Örn í 4. bekk, Hlynur Orri í 8. bekk og Þóra Dís í 5. bekk. Baráttusöngur barnanna var fluttur af 1. bekk. Því næst ávarpaði Kristín Jóhannesdóttir sviðstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs Akureyrar og óskaði Síðuskóla til hamingju með viðurkenninguna og nafnbótina. Að lokum var komið að stóru stundinni þegar Unnur Helga Ólafsdóttir, verkefnastjóri UNICEF, afhenti Síðuskóla, frístundinni ásamt Undirheimum, staðfestingu á því að þau eru Réttindaskóli UNICEF, ásamt fána sem var dregin að húni í lok athafnar. Allir nemendur fengu svo ís í eftirrétt til að gera daginn enn eftirminnilegri.

Hér eru myndir frá deginum og aðeins hvað Réttindaskóli UNICEF stendur fyrir:
Réttindaskóli UNICEF (e. Child Right Schools) er hugmyndafræði og hagnýtt verkefni fyrir skóla- og frístundastarf sem tekur mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, Barnasáttmálanum eins og hann er iðulega nefndur, og miðar að því að auka virðingu, vernd og framkvæmd mannréttinda. 
Þegar skóli gerist Réttindaskóli ákveður hann að skuldbinda sig við að gera réttindi barna að raunveruleika eftir bestu getu. Skóli, frístundaheimili og félagsmiðstöð eru jafnir samstarfsaðilar í verkefninu og er það gert með það að markmiði að setja barnið sem einstakling í miðju verkefnisins. Vinna með Barnasáttmálann hefur bein áhrif á líf barna og er mikilvægt að sú vinna fljóti sem mest milli allra þeirra uppeldisstofnanna sem barnið sækir.

Réttindaráð leiðir innleiðingu Réttindaskóla- og frístundar og hittist að minnsta kosti tvisvar í mánuði. Meðlimir ráðsins eru umsjónarmenn í skóla, frístundaheimili og félagsmiðstöð, tvö börn úr hverjum árgangi og fulltrúi foreldra/forsjáraðila. Réttindaráð Síðuskóla hefur unnið að þessari nafnbót undanfarin tvö ár. 

Til hamingju Síðuskóli, frístund Síðuskóla og félagsmiðstöðin Undirheima með nafnbótina.

Lesa meira

Síðuskóli verður Réttindaskóli UNICEF

Næstkomandi þriðjudag, 26. nóvember, ætlum við gera aðra tilraun til að taka á móti viðurkenningu sem Réttindaskóli UNICEF. Hátíðin verður kl. 10.10 í íþróttahúsinu og bjóðum við gesti hjartanlega velkomna að gleðjast með okkur á þessum tímamótum. 

Lesa meira

Viðurkenning fyrir Göngum í skólann

Í dag fór 5. bekkur í Skautahöllina en það var viðurkenning fyrir bestan árangur í Göngum í skólann. Hér má sjá nokkrar myndir frá ferðinni. 

Lesa meira

Setning Litlu upplestrarkeppninnar og Upphátt - Dagur íslenskrar tungu 16. nóvember.

Á laugardaginn var, 16. nóvember, var dagur íslenkrar tungu en það er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar sem fæddist árið 1807 á Hrauni í Öxnadal. Á þessum degi ár hvert minnum við okkur á mikilvægi þess að varðveita og efla tungumálið okkar.

Íslenskan er ekki bara samskiptatæki, hún er lykillinn að menningu okkar, sögu og sjálfsmynd. Skólastarf gegnir stóru hlutverki í því að tryggja að íslenskan lifi áfram, því hér lærum við ekki aðeins reglur og gildi tungumálsins, heldur einnig að nota hana skapandi og á fjölbreyttan hátt. Íslenskan er dýrmæt - hún endurspeglar hugsanir okkar og heiminn sem við búum í. Hún veitir okkur orðin til að lýsa tilfinningum, vonum og draumum. Með því að leggja rækt við tungumálið tryggjum vð að komandi kynslóðir eigi sömu tækifæri til að tjá sig á okkar fallega tungumáli.

Í dag var Litla upplestrarkeppnin í Síðuskóla sett fyrir 4. bekk og einnig upplestrarkeppni grunnskólanna á Akureyri, Upphátt, fyrir  7. bekk. Nú tekur við tímabil æfinga í upplestri og framsögn hjá þeim. Haldnar verða uppskeruhátíðir í lok febrúar ásamt því að velja fulltrúa Síðuskóla fyrir Upphátt sem taka síðan þátt í lokahátíð grunnskólanna á Akureyri í Hofi á vordögum. 

Einnig er efnt til keppni um besta veggspjaldið fyrir Upphátt keppnina og taka allir nemendur 7. bekkjar þátt í því. Skilafrestur fyrir veggspjaldið er 10. janúar 2025. 

Sjá myndir frá morgunstundinni hér.

Lesa meira