Byggingarsaga skólans - úr skólahandbók
Á árinu 1982 var fyrst farið að ræða af alvöru í skólanefnd um skóla í Síðuhverfi, en fyrstu íbúarnir fluttu í hverfið í janúar 1979.
31. ágúst 1982 er skráð í fundargjörð skólanefndar að meirihluti hennar hafi samþykkt "að Síðuskóli verði fullkominn grunnskóli, tvær hliðstæður, nemendafjöldi ca 480. Fyrst verði byggður áfangi fyrir 6-10 ára börn og meðan fjöldinn er mestur gangi 13-15 ár börn í Glerárskóla eða aðra. Skólinn verði byggður sem mest í álmum með aðskildum leikvöllum fyrir mismunandi aldurshópa".
Skólanefnd leggur til að húsameistara verði falið að hefja hönnun Síðuskóla en fellir tillögu um að skólamanni verði falið að vera til aðstoðar hönnuðum. 30. nóv. 1982 hafnar skólanefnd tillögum sem komnar eru að Síðuskóla og felur Sigrúnu Sveinbjörnsdóttur og Indriða Úlfssyni að vinna með fulltrúum húsameistara.
31. jan. 1983 er enn rætt um hönnun Síðuskóla og hve hægt hún hafi gengið. Skólanefnd samþykkir að óska eftir því við bæjaryfirvöld að stofnaður verði skóli í Síðuhverfi og rekstur hans hafinn í leiguhúsnæði haustið1983 þar sem ljóst er að 1. byggingaráfangi Síðuskóla verði ekki tilbúinn. Ekki urðu bæjaryfirvöld við þessari ósk. 2. mars kemur húsameistari Akureyrarbæjar með þrjár tillögur að teikningum. 4. mars er enn rætt um tillögurnar þrjár og tillaga A samþykkt með 3 atkv. gegn 2. Báðir aðilar gerðu grein fyrir atkvæðum sínum og þar kemur fram að tillaga sem byggði á sexhyrningum hefði þjónað betur sveigjanlegu skólastarfi, en skólanefnd ályktaði sumarið áður að tekið yrði tillit til sveigjanlegrar skólastarfsemi við hönnun Síðuskóla. Þar sem algjört neyðarástand ríkti í skólamálum Síðuhverfis og sexhyrningstillagan á frumstigi hönnunarlega séð auk þess að vera dýrari og ekki hægt að byggja hana í áföngum, greiddi meiri hlutinn atkvæði með tillögu A. 8. ágúst 1983 er jarðvegsvinna hafin.
Ingólfur Ármannsson var settur skólastjóri 1. júni 1984 og kennsla byrjaði 20. september um haustið. (Heimildir: Fundargjörð skólanefndar). Veturinn 1985-86 var einungis ein kennsluálma við skólann, A-álma. Haustið 1986 bættist syðri hluti B-álmu við. Um miðjan vetur 1987-88 var norður hluti B-álmu (stjórnunarálman) tilbúin og veturinn eftir var lokið við norðurhluta kjallarans. Smíðastofa var ekki í skólanum fyrr en haustið 1989 en fram að þeim tíma var yngri nemendum ekið í smíðatíma niður í Oddeyrarskóla en þeir eldri fengu inni í Glerárskóla.
Þrengsli hafa alla tíð verið mjög mikil og var bráðasti vandinn leystur með 2 færanlegum kennslustofum sem teknar voru í notkun haustið 1990. Veturinn 1992-1993 hafði Tónlistarskólinn aðra stofuna fyrir sína kennslu. Á fyrstu árum skólans sóttu nemendur íþróttatíma í íþróttahús Glerárskóla. Yngstu nemendunum var kennt í kjallara Síðuskóla.
Árið 1990 gerði bæjarsjóður leigusamning til næstu tíu ára við Sjálfsbjörg um afnot af íþróttasal félagsins að Bjargi. Þangað fóru nemendur í 1.-7. bekk en eldri nemendur þarf enn að senda niður í Glerárskóla. Sund var kennt í Sundlaug Akureyrar en eftir að sundlaug Glerárskóla var tilbúin, í mars 1990, hafa nemendur verið í sundi þar. Veturinn 1998-1999 var einnig kennt í Akureyrarlaug.
Haustið 1992 var síðan þriðja og austasta álma skólans tilbúin til kennslu. Haustið 1994 bættist svo enn við kennsluhúsnæðið, nú í Glerárkirkju. Þar fengust 2 stofur sem voru nýttar fyrir yngri barna kennslu og 1 stofa til viðbótar haustið 1997. Haustið 1996 bættist við 1 færanleg kennslustofa og 2 haustið 1997. Þar með voru færanlegar kennslustofur orðnar 5 og 3 stofur í Glerárkirkju.
Veturinn 1998-1999 er auk þess kennt í einni stofu í Giljaskóla.
Haustið 1999 var álma 4 tekin í notkun og er skólinn þá talinn fullbyggður ef frá er talin íþróttaaðstaða. Þá voru fjarlægðar 2 lausar kennslustofur en áfram kennt í kirkjunni. Haustið 2001 var hætt að kenna í Glerárkirkju, en áfram kennt í 3 lausum kennslustofum auk þess sem tónmenntastofan var notuð sem almenn kennslustofa.
Vorið 2003 var hafist handa við að byggja íþróttahús og fjölnota sal sem ætlaður er sem samkomusalur, félagsmiðstöð fyrir unglingana í hverfinu og mötuneyti fyrir skólann. Leiksviðið í fjölnotasalnum verður notað sem kennslustofa fyrir Tónlistaskóla Akureyrar. Einnig lóð skólans hönnuð að nýju og framkvæmdir hófust þar sumarið 2003. Brúttóstærð íþróttahúss og búningsaðstöðu er um 1412 fermetrar og fjölnýtisals 836 fermetrar. Tvær af lausu kennslustofunum voru fluttar annað en Tónlistaskóli Akureyrar kennir í einni lausri kennslustofu sem flutt var vestur fyrir skólann. Íþróttahús er í byggingu við skólann og verður tilbúið haustið 2004.
Strax 1984, á fyrsta starfsári skólans, var farið að kaupa bækur í væntanlegt skólasafn, en þær voru fyrstu árin geymdar á kennarastofunni. Það var ekki fyrr en í desember 1987 sem safnið var sett upp í sérstöku húsnæði, 36m2 stofu í B-álmu. Þar var safnið til vors 1992, þegar það flutti í núverandi húsnæði í kjallara skólans. Það er 144m2 að flatarmáli og auk þess er geymslurými á leiðslugangi við hliðina á safninu. Sæti eru fyrir 34 við borð og 6 í lesbásum. Skráning: Fyrstu árin sáu ritarar skólans um safnið og var frá upphafi lögð áhersla á að skrá það eftir föngum. Skólasafnskennari kom svo til starfa við safnið í janúar 1991 og var þá gert átak í að ljúka skráningu þess efnis er til var. Vorið 1992 var fjárfest í tölvukerfi fyrir safnið og hófst tölvuskráning í ágúst sama ár. Búið er að skrá og efnistaka allan safnkost og er allt efni skráð um leið og það berst. Safnkostur: Árið1992 fékkst óvenju mikið fé til safnsins í tengslum við nýbyggingu við skólann. Þessir peningar fóru í innréttingar og bækur auk tölvukerfisins. Safnið óx því hratt sem sést best á því að vorið 1991 voru um 3000 bindi á safninu, ári seinna voru þau orðin 4.275 en vorið 1993 voru þau orðin rúmlega 5.400. Auk bóka var farið að kaupa myndbönd, hljóðbækur og forrit í auknum mæli. Vorið 1997 átti safnið rúmlega 7.300 eintök þegar allt var talið. Í lok skólaárs 1999 átti safnið tæplega 9000 eintök. Auk þess berast um 30 tímarit og fréttabréf reglulega. Miðað við alþjóðlega staðla um stærð skólasafna uppfyllir safnið þær lágmarkskröfur sem miðað er við.
Hér er hægt að lesa um framhald byggingarsögu Síðuskóla sem lauk með vígslu íþróttahúss haustið 2005.