Sérdeild - upplýsingar og umsóknarferli

Sérdeild fyrir einhverfa nemendur í Síðuskóla.

Sérdeild fyrir nemendur með einhverfu og skyldar fatlanir var stofnuð í Síðuskóla haustið 1999. Henni er ætlað að starfa í samræmi við lög um grunnskóla nr. 91/2008. Þeir nemendur sem búsettir eru á Akureyri og hlotið hafa einhverfugreiningu hjá viðurkenndum greiningaraðilum eiga rétt á að stunda nám í sérdeild. Þar að auki þurfa nemendur að hafa önnur frávik s.s. þroskaskerðingu og/eða skilgreinda hegðunarerfiðleika. Deildin hefur ráðgefandi hlutverk vegna einhverfra barna í öðrum grunnskólum á Akureyri. (sjá nánar í deildarnámsskrá).

Deildarstjóri sérdeildar er Sigurlaug Ásta Grétarsdóttir sag@akmennt.is 

Þegar foreldrar óska eftir skólavist í sérdeildinni þurfa ákveðnar forsendur að liggja fyrir

Ferli umsókna

  • Umræða hafi farið fram í þjónustuteymi nemandans í leikskóla/grunnskóla
  • Foreldrum boðið að koma og skoða sérdeildina jafnvel með aðila úr þjónustuteyminu
  • Fundur með foreldrum og þjónustuteymi þar sem afstaða er tekin til þess hvort senda eigi umsókn í sérdeildina
  • Foreldrar sækja formlega um skólavist á þartilgerðu umsóknareyðublaði og senda til skólastjóra eða fagstjóra sérdeildar. Afrit er sent til Fjölskyldudeildar Akureyrarbæjar.
  • Inntökuteymi sem í eru skólastjóri, fagstjóri sérdeildar og forstöðumaður sérfræðiþjónustu leggja síðan mat á umsóknir og kalla til eða leita upplýsinga hjá þeim sem málið þekkja.
  • Ákveðið að bjóða nemandanum skólavist en ef ekki þá má bjóða ráðgjöf til þess skóla sem nemandinn dvelur í.

 

Námið  

Í sérdeild Síðuskóla er lögð áhersla á einstaklingsmiðað nám sem tekur mið af þörfum nemandans og stöðu, óskum foreldra og skólanámskrá. Nám og námsumhverfi í sérdeild er byggt upp samkvæmt TEACCH aðferðafræðinni (Treatment and Education of Autistic and related Communication handicapped Children) sem er viðurkennd og útbreidd aðferðafræði við meðferð og kennslu einhverfra (sjá nánar í deildarnámsskrá.) Í sérdeildinni er lögð mikil áhersla á samskipan fatlaðra og ófatlaðra og gott og markvisst foreldrasamstarf. Foreldrar eru þátttakendur í markmiðssetningu í námi.

 

Einhverfa

Einhverfa er þroskaröskun sem verður vegna frávika í taugaþroska á fósturstigi en vitað er að hún getur haldið áfram eftir fæðingu. Ekki er enn vitað nákvæmlega hvað veldur einhverfu en erfðir eru taldar skýra stærstan hluta. Algengt er að einhverfa uppgötvist á fyrstu tveimur æviárum barnsins. Einhverfa hefur mismunandi birtingarform allt eftir tíðni og alvarleika einkenna, en einkenni koma aðallega fram á sviði félagslegs samspils, boðskipta og hegðunar. Sterk tengsl eru milli einhverfu og þroskahömlunar en 70-80% einhverfra eru jafnframt þroskaskertir. Einhverfa er nánast án undantekninga fötlun til lífstíðar og í dag er algengi talið vera 60 af 10.000. Ekki eru til lyf við einhverfu en ýmis lyf geta verið hjálpleg við að slá á ýmis einkenni og fylgikvilla. Framvinda einhverfu er breytileg og þar hafa ýmsir þættir áhrif eins og heilsufar, málþroski og magn og gæði þjónustu svo eitthvað sé nefnt. Mikilvægt er að íhlutun hefjist sem fyrst þegar barnið er enn ungt að árum þannig næst bestur árangur.