Annað starfsfólk

Stuðningsfulltrúi

Stuðningsfulltrúi er kennurum til aðstoðar við að sinna einum eða fleiri nemendum sem þurfa sérstaka aðstoð.  Stuðningsfulltrúi vinnur eftir einstaklingsnámskrá nemenda eftir leiðsögn kennara og aðstoðar nemendur við að ná settum markmiðum. Hann aðlagar verkefni að getu nemandans samkvæmt leiðbeiningum kennara, ýtir undir sjálfstæð vinnubrögð og styrkir félagsleg tengsl. Hann tekur þátt í undirbúningi og skipulagi kennslunnar eftir þörfum og í samræmi við þann tíma sem skilgreindur er til þess. Sinnir frímínútnagæslu og öðrum verkefnum sem honum eru falin s.s. í vettvangsferðum og ferðum í sund.

Náms- og starfsráðgjafi

Ráðgjafi tekur þátt í velferð nemenda í skólanum með ráðgjöf til þeira og er tengiliður forvarnarfulltrúa skólans. Hann veitir nemendum ráðgjöf í einkamálum sínum og aðstoðar við markmiðssetningu í námi og í persónulegum aðstæðum. Ráðgjafi aðstoðar nemendur við að gera sér grein fyrir eigin áhugasviðum og meta hæfileika sína raunsætt. Hann styður við þá nemendur sem þurfa sérstaklega á því að halda. Ráðgjafi sinnir fyrirbyggjandi starfi t.d. vörnum gegn vímuefnum, einelti og ofbeldi í samstarfi við aðra starfsmenn skólans. Ráðgjafi situr í lausnateymi SMT, forvarnarteymi gegn einelti og nemenda vernd og sinnir auk þess verkefnum er skólastjóri felur honum.

Skólaliði

Skólaliði sér um gæslu og þrif á húsnæði og eigum skólans. Hann aðstoðar m.a. við móttöku nemenda á morgnana, er á frímínútnagæslu, fylgir yngstu börnum í akstri í íþróttir og sund. Fylgir nemendum með sérþarfir eftir við ýmsar aðstæður og aðstoðar í matsal. Er við gæslu og eftirlit á göngum skólans. Skólaliði leiðbeinir nemendum í samskiptum og umgengni. Skólaliði sinnir öðrum þeim störfum sem umsjónarmaður fasteignar eða skólastjóri felur.

Skólaliði/baðvörður

Skólaliði/baðvörður sér um búningsklefa í tengslum við íþróttatíma og að farið sé þar að reglum skólans. Hann sinnir auk þess ýmissi þjónustu og aðstoð við nemendur og gæslu og þrifum á húsnæði og eignum skólans. Hann leiðbeinir börnum í samskiptum og umgengni. Skólaliði/baðvörður sér um dagleg þrif á bað - og búningsklefa, og salernum ásamt öðrum vistarverum í íþróttasal ásamt forstofu skólans. Hann sinnir einnig almennum störfum við þrif á skólahúsnæði og skólalóð og gæslu í frímínútum og hádegishléi. Skólaliði/baðvörður aðstoðar við flokkun úrgangs og sinnir öðrum þeim störfum sem umsjónarmaður fasteignar eða skólastjóri felur.

Skólaritari

Skólaritari sér um að veita skrifstofu skólans forstöðu. Hann sér til þess að gögn varðandi nemendur og starfsmenn séu skráð og varðveitt. Skólaritari heldur utan um reikninga og bókhald í samstafi við skólastjóra. Veita nemendum, foreldrum og starfsfólki venjubundna skrifstofuþjónustu. Skólaritari annast öll almenn skrifstofustörf í skólanum, símavörslu, skiptiborð og innanhússkerfi, tekur við fjarvistartilkynningum og skráir í Mentor. Hann sér um skráningar og uppgjör vegna Matartorgs og Frístundar. Hefur eftirlit með tækjum á skrifstofu, kallar eftir viðgerðarmanni ef þess er þörf og sér um pantanir á pappír og öðrum skrifstofugögnum. Ritari annast innritun og sér um nemendaskrá í skólanum. Skólaritari annast undirbúnings- og frágangsvinnu í Mentor við upphaf og lok skólaárs. Skólaritari sinnir einnig öðrum þeim verkefnum sem skólastjóri kann að fela honum.

Umsjónarmaður fasteignar/húsvörður

Umsjónarmaður fasteignar sér um að skólabyggingin og umhverfi hennar sé vel um gengin og viðhaldið þannig að í henni geti farið fram eðlilegt skólahald. Umsjónarmaður ber ábyrgð gagnvart skólastjóra á viðhaldi og ræstingu skólahúsnæðis, skólalóðarinnar, húsbúnaði, leiktækjum og girðingum á lóð. Hann hefur verkstjórn yfir skólaliðum og ber ábyrgð á skráningu yfirvinnutíma þeirra gagnvart skólastjóra.

Umsjónarmaður sér um að húsnæði, allur búnaður og lóð skólans séu ávallt í fullnægjandi ástandi og aðgengilegt fyrir starfsfólk og nemendur. Hann sér um flokkun og frágang sorps frá skólanum og hreinsun á rusli á skólalóð. Sér um að skólahúsnæðið sé opið við upphaf skóladags og ber ábyrgð á frágangi húsnæðis í lok skóladags. Hann hefur umsjón með öryggis - og eftirlitsbúnaði og kallar til iðnaðarmenn til stærri verka í samráði við umhverfis- og mannvirkjasvið Akureyrarbæjar. Vinnur að viðhaldsáætlun fyrir skólahúsnæði í samvinnu við skólastjórnendur og UMSA og fylgir eftir verkframvindu.

Umsjónarmaður sér um innkaup á ræstingarvörum og öðru er varðar verksvið viðkomandi. Annast snjómokstur frá dyrum og af tröppum skólans, útvegar sand eða snjómokstur á skólalóð eftir þörfum. Umsjónarmaður fasteigna hefur eftirlit með nemendum þegar aðstæður kalla á slíkt og leiðbeinir í samskiptum og umgengni ásamt því að sinna öðrðum þeim störfum er starfsmanni kunna að vera falin af skólastjóra.

Bókavörður

Bókavörður hefur yfirumsjón með bókasafni skólans. Hann sér um innkaup á bókum og skráningu í rafrænt upplýsingakerfi og afkriftum eftir því sem við á. Hann kynnir áhugavert lesefni fyrir kennurum og nemendum og er tengiliður þegar lestrarátak er í gangi í samstarfi við utanaðkomandi aðilia. Hann hefur umsjón með framkvæmd stóru upplestrarkeppninnar í 7. bekk og litlu upplestrarkeppninnar í 4. bekk. Bókavörður sinnir fræðslu um starf bókasafnsins fyrir nemendahópa.

Tölvuumsjónarmaður

Tölvuumsjónarmaður hefur umsjón með endurnýjun og viðhaldi á tölvubúnaði, uppsetningu hugbúnaðarforrita í tölvum, eftirlit og umsjóna með skólaneti/staðarneti skóla og veitir ráðgjöf til stjórnenda varðandi búnaðarkaup. Tölvuumsjónarmaður leiðbeinir starfsfólki í tæknimálum innan síns starfssvið og aðstaðar það við notkun upplýsingatækni. Starfsmaður starfar í samráði og í samstarfi við tæknisráðgjafa fræðslusviðs og hýsingar/þjónustuaðila bæjarins eftir þörfum. Hann sinnir auk þess öðrum þeim verkefnum sem skólastjóri felur honum.