ÍSAT

6. bekkur í Danmörku

Ferð 6. bekkjar til Danmerkur gengur í alla staði vel. Það er búið að fara með hópinn víða í kring um Ryomgård, vinna fjölbreytt verkefni, syngja skólasönginn á söngsal fyrir alla nemendur skólans og ýmislegt fleira. Danirnir hafa skipt börnunum í 4 hópa sem vinna meira og minna saman í öllum verkefnum sem þau fara í. Hóparnir eru merktir eftir litum og er mjög þægilegt að halda utan um þessi 100 börn þannig. Í gær heimsóttum við Fjordcentret þar sem krakkarnir glímdu við allskonar útiverkefni. Þar prófuðu allir að veiða á stöng, kveikja eld án eldfæra og notuðu til þess m.a. nornahár og timbur. Allir fóru líka í vöðlur og veiddu allskonar smádýr til að setja í tjörnina hjá þeim og skutu úr ótrúlega skemmtilegri vatnsfallbyssu.  Myndir frá Fjordcentret.
Lesa meira

100 miða leikur og fleiri viðurkenningar

Fimmtudaginn 30. mars voru nemendur kallaðir á sal að morgni dags. Tilefnið var að útnefna þá 10 sem dregnir höfðu verið út í 100 miða leiknum sem er árviss leikur í tengslum við SMT skólafærni. Þeir nemendur fóru síðan með stjórnendum í bogfimi og gerðu sér glaðan dag og gengu svo í ísbúð þar sem allir fengu ís. Svo skemmtilega vildi til að daginn áður sigrðari lið Síðuskóla Norðurlandsriðilinn í Skólahreysti svo það var svo sannarlega tilefni til að hylla sigurliðið og gefa þeim gott klapp og blóm. Þá fékk Axel Máni í 4. bekk viðurkenningu í teiknisamkeppni MS og fékk gott klapp frá skólafélögum. Hér má sjá myndir.
Lesa meira

Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk 2017

Á dögunum fór fram lokahátið stóru upplestrarkeppninnar í Hólum, hátíðarsal Menntaskólans á Akureyri. Þar lásu fulltrúar Síðuskóla, þær Írena og Klara og stóðu sig í alla staði afar vel. Þær voru valdar sem fulltrúar skólans eftir lestarkeppni innan árgangsins sem haldin var nokkru áður. Myndir
Lesa meira

Skólahreysti

Miðvikudaginn 29. mars nk. var keppt í Norðurlandsriðli í Skólahreysti í Íþróttahöllinni. Við áttum þar lið og titil að verja frá því í fyrra þegar við sigruðum riðilinn. Það gerðum við aftur í þetta sinn. Liðið okkar í ár er firnasterkt en það skipa þau Guðni, Eygló, Hulda Karen, Ragúel, Embla og Unnar. Við hvöttum nemendur til að klæðast rauðu þennan dag sem er okkar litur :)   Áfram Síðuskóli! Hér má sjá myndir úr keppninni. Fleiri myndir. Enn fleiri myndir. Og enn meira.
Lesa meira

Símalausar frímínútur

Þann 13. - 24. febrúar sl. voru símalausar frímínútur hjá 7. - 10. bekk í Síðuskóla. Þetta var hugmynd sem kom frá nemendum sjálfum og nemendaráð útfærði í samráði við Helgu Dögg kennara í janúar. Framkvæmdin var þannig að í 9:20-9:45 frímínútunum var áherslan á tækjalaus samskipti nemenda í gegnum leiki, skák, íþróttir, spjall, spil og fleira. Bekkirnir tóku sjálfir ábyrgð á afþreyingunni á ákveðnum svæðum, 7. og 8. bekkur tók ábyrgð á íþróttasalnum, 9. bekkur sá um matsalinn og 10. bekkur um unglingaganginn. Nemendur höfðu hitt íþróttakennara skólans sem hjálpuðu til að að skipuleggja dagskrá fyrir alla dagana, þ.e. hvað var í boði en það var breytilegt eftir dögum þannig að allir fyndu eitthvað við sitt hæfi. Í matsalnum var boðið upp á spil og spjall og var fjölbreytt úrval af spilum sem nemendur höfðu aðgang að. Á unglingagangi var boðið upp á að lesa og lita og í einni stofunni var boðið upp á skák. Enginn var neyddur til að taka þátt og þeir sem kusu frekar að vera í sínum tækjum gátu gert það í einni stofu á unglingagangi. Verkefnið heppnaðist vel, afþreyingunni var vel tekið og nýttu margir sér það að geta spjallað án truflunar snjalltækja í frímínútum. Ákveðið var að halda upp á vel heppnað verkefni og var 7. – 10. bekk boðið í kakó og skúffuköku sem nokkrar stúlkur úr 9. og 10. bekk bökuðu, í frímínútum í morgun. Þar var m.a. rætt hvernig til tókst og hvort ekki sé ástæða sé til að endurtaka leikinn fljótlega. Myndin sem fylgir fréttinni var tekin við það tækifæri.
Lesa meira

Útivistardagur í dag

Nú höldum við í Hlíðarfjall í dag. Veður er gott og vonandi lætur sólin sjá sig. Þá er bara að klæða sig vel og hafa með sér hollt og gott nesti.
Lesa meira

Útivistardagur í Hlíðarfjalli

Fimmtudaginn 16 mars er fyrirhugaður útivistardagur í Hlíðarfjalli. Þá fara allir nemendur skólans með rútu í Hliðarfjall að morgni og koma til baka kringum hádegi. Þeir sem eru í 6. bekk og eldri mega vera lengur með skriflegu leyfi foreldra. 
Lesa meira

Hreinsun á skólalóð

Í gær fóru nokkrir nemendur í sérdeild út og snyrtu umhverfið í kringum skólann. Ekki skemmdi fyrir hversu gott veðrið var og nutu allir útiverunnar. Á myndinni má sjá nemendur og kennara þeirra, þær Jóhönnu Jessen og Sigrúnu Birnu.
Lesa meira

Vetrarfrí

Dagana 1., 2. og 3. mars verður vetrarfrí í Síðuskóla. Nemendur verða í fríi þessa daga og mæta aftur til starfa mánudaginn 6. mars.
Lesa meira

7. bekkur að Reykjum

Á mánudagsmorgun lögðu nemendur 7. bekkjar ásamt umjónarkennurum af stað að Reykjum í Hrútafirði þar sem þeir dvelja þessa vikuna við leik og störf. Hópurinn lagði af stað heim til Akureyrar kl. 8.50 í morgun og er væntanlegur í Síðuskóla milli  klukkan 11:00 og 11:30. 
Lesa meira