31.05.2017
Í vetur hafa mörg skemmtileg verkefni verið í gangi hjá okkur
í Síðuskóla. Eitt þeirra er samstarf 6. bekkjar skólans við jafnaldra sína í Ryomgaard
Realskole á Jótlandi. Verkefnið er styrkt af Norplus auk þess sem leitað var
styrkja frá fyrirtækjum héðan af svæðinu. Nemendur úr Síðuskóla fóru til
Danmerkur ásamt kennurum og fulltrúum frá foreldrum í apríl sl. Sú ferð heppnaðist
einstaklega vel og má sjá myndir úr þeirri ferð hér. Dönsku krakkarnir komu svo
til okkar núna í maí og var skipulögð mikil dagskrá með okkar nemendum, m.a.
var farið í safnaferðir, í siglingu með Húna og farin var dagsferð á Mývatn og
Húsavík svo eitthvað sé nefnt, og myndir úr heimsókninni má sjá hér. Búið var að þýða ýmsa hluti og leiðbeiningar í
skólanum á dönsku auk þess sem skólinn var prýddur fánum og má segja að dönsku
fánalitirnir hafi verið áberandi í skólanum á með heimsókninni stóð. Þetta verkefni
heppnaðist einstaklega vel, en mikil vinna lá á bakvið það hjá umsjónarkennurum
bekkjarins, þeim Jónínu og Jóhönnu auk Helgu Daggar dönskukennara. Myndir frá
heimsókn Dananna má sjá hér, en greinilegt er að allir skemmtu sér vel í þessu
flotta og metnaðarfulla verkefni.
Lesa meira
30.05.2017
Nú er síðasta kennsluvika þessa skólaárs og ýmislegt gert til að brjóta upp hversdagsleikann. Nemendur í 1. - 7. bekk taka sína vordaga á miðvikudaginn 31. maí og fimmtudaginn 1. júní og fara í styttri ferðir innanbæjar og í næsta nágrenni. Föstudaginn 2. júní eru nemendur svo með kennurum skv. stundatöflu fyrri hluta dags. Milli kl. 11 og 12 verður grillað og öllum boðið upp á pylsur í innigarðinum. Nemendur 1. - 9. bekkjar verða svo kallaðir inn á íþróttasal kl. 12:30 og þá fara fram skólaslit. Foreldrar eru velkomnir með. Ólöf skólastjóri talar við hópinn og síðan fylgja nemendur sínum umsjónarkennurum í heimastofur. Skóla lýkur um kl. 13:30 þennan dag og þá eru allir í 1. - 9. bekk komnir í frí.
Nemendur á unglingastigi taka sína vordaga 1. og 2. júní og fara í ferðir um bæinn og næsta nágrenni. Þeir enda eins og aðrir á grilli í innigarðinum milli kl. 11 og 12. Úskrift hjá 10. bekk verður í Glerárkirkju kl. 15:00 á föstudaginn og útskriftarnemendur og foreldar koma svo saman í kaffi í skólanum að athöfn lokinni.
Nánari dagskrá má sjá í fréttabréfi júnímánaðar.
Lesa meira
16.05.2017
Í gær var haldin rýmingaræfing í skólanum, þar sem æfð var
rýming á öllum skólanum. Þetta er gert einu sinni á ári með þessum og tekinn er
tími frá því að brunakerfið fer í gang þangað til allir eru komnir út á
söfnunarsvæðið. Æfingin í gær heppnaðist einstaklega vel, allir þekktu sitt
hlutverk og kunnu leiðirnar út úr skólanum komi til rýmingar. Slökkvilið kom á
staðinn og fengu yngstu nemendurnir að skoða bílana áður en haldið var aftur
inn í skólastofurnar. Myndir frá æfingunni má sjá hér.
Lesa meira
12.05.2017
Lokahátíð Litlu upplestrarkeppninnar í 4.
bekk var haldin á sal skólans í gær. Keppnin hófst formlega á Degi íslenskrar
tungu 16. nóvember sl., en sá dagur er jafnframt fæðingardagur Jónasar
Hallgrímssonar. Á dagskrá í gær var lestur og söngur nemenda en foreldrum var boðið
að koma og fylgjast með. Hátíðin heppnaðist vel, var fjölbreytt og allir stóðu sig með sóma og skiluðu sínu vel. Tónlistaratriði voru milli atriða, þar sem tveir nemendur úr
bekknum spiluðu á píanó, auk þess sem einn nemandi spilaði undir söng á gítar í einu atriðinu. Allir þáttakendur
fengu viðurkenningarskjal í lokin, en eftir hátíðina var foreldrum boðið í kaffi.
Myndir frá hátíðinni má sjá hér.
Lesa meira
11.05.2017
Vorhátíð Foreldra- og kennarafélags Síðuskóla verður haldin sunnudaginn 14. maí kl. 14:00 - 16:00. Nemendur, foreldrar og aðrir aðstandendur eru hvattir til að mæta og gera sér glaðan dag saman. Þeir nemendur sem eru að hefja nám í 1. bekk eru boðnir sérstaklega velkomnir og eiga þeir að mæta klukkan 13:00.
Lesa meira
08.05.2017
Í dag fengu nemendur í 7., 8. og 9. bekk kynningu á valgreinum næsta skólaárs ásamt eyðublaði sem fylla þarf út. Lýsingar á valgreinum má finna í valgreinabæklingi, sjá nánar.
Lesa meira
04.05.2017
Síðasti söngsalurinn okkar var haldinn á sal í dag. Ívar Helgason spilaði undir og að þessu sinni valdi hann lögin sem allir tóku undir af mikilli innlifun. Tækifærið var notað til að fagna glæsilegum sigri krakkanna okkar í Skólahreysti. Bæjarstjórinn okkar, Eiríkur Björn Björgvinsson kom að þessu tilefni og færði skólanum heillaóskir og keppendum og kennurum gjöf. Ólöf skólastjóri fór yfir hvernig lið Síðuskóla hefur sigrað Akureyrarriðilinn síðustu fimm ár og fikrað sig upp á við í lokakeppninni þar sem við náðum 2. sæti í fyrra og núna því fyrsta. Myndir
Lesa meira
04.05.2017
Þeir nemendur sem hefja nám í Síðuskóla haustið 2017 komu í heimsókn þriðjudaginn 3. maí ásamt foreldrum sínum. Skólastjóri bauð alla velkomna á sal og afhendi boðsbréf frá foreldara- og kennarafélagi Síðuskóla, FOKS á vorhátíðina sem haldin verður sunnudaginn 14. maí. Að því loknu fóru nemendur með verðandi umsjónarkennurum 1. bekkjar, þeim Möggu og Hillu í heimastofur bekkjarins en foreldrar fengu fræðslu um starfs skólans í salnum á meðan. Hér má sjá myndir.
Lesa meira
26.04.2017
Lið okkar Síðuskóla vann lokakeppnina í Skólahreysti sem sýnd var í beinni útsendingu í kvöld á RÚV. Þessir frábæru krakkar eru vel að sigrinum komnir og stóðu sig allir með glæsibrag. Guðni Jóhann og Eygló kepptu í upphýfingum, dýfum, armbeygjum og hreystigreip og Ragúel og Embla Dögg fóru hraðabrautina og slógu íslandsmet til margra ára. Þá má ekki gleyma varamönnunum þeim Unnari og Huldu Karen sem hafa æft af kappi og verið klár að hlaupa í skarðið en keppandi þarf einhverra hluta vegna að draga sig í hlé. Þessi frábæri hópur hefur í vetur æft af kappi ásamt fleiri nemendum undir stjórn íþróttakennaranna Eddu, Rainers og Veroniku. Hamingjuóskir til okkar allra og hjartans þakkir til íþróttakennara og keppenda.
Lesa meira
21.04.2017
Í morgun var Söngkeppni Síðuskóla haldin í annað sinn. Að
þessu sinni voru átta atriði sem kepptu um titilinn. Nemendum frá 5. – 10. bekk
stóð til boða að keppa og voru nemendur frá þeim bekkjum áhorfendur. Keppnin
var hörð en að lokum stóð Klara Fönn Arnedóttur í 7. bekk uppi sem sigurvegari, hún söng
lagið Ást eftir Ragnheiði Gröndal. Ína Soffía Hólmgrímsdóttir varð í öðru sæti,
en hún söng lagið Silhouette. Hópur stúlkna úr 10. bekk urðu svo í 3. sæti en
þær fluttu Nínu eftir Eyjólf Kristjánsson. Þetta var skemmtileg keppni og stóðu
keppendur sig með stakri prýði. Hér með fréttinni fylgir svo mynd af Klöru með
viðurkenningarskjal að keppni lokinni.
Lesa meira