Á þemadögum í nóvember söfnuðu nemendur í 5. og 10. bekk peningum með því að selja knús. Þeir gáfu einnig út skólablað sem þeir hafa verið að selja. Með þessu tókst krökkunum að safna kr. 45.000.- og hefur peningunum nú verið varið í að kaupa gjafabréf fyrir vatnstank handa börnum í Úganda.
Vatn er undirstaða alls lífs en sumstaðar er það vandfundið. Munaðarlausu börnin í Úganda eyða mörgum klukkustundum á dag í að sækja það. Með gjafabréfinu spörum við þeim tíma og fyrirhöfn þar sem byggður verður vatnstankur við heimili þeirra. Af bárujárnsþökum má safna rigningarvatni sem dugar 3-4 mánuði inn í þurrkatímann. Í stað þess að eyða deginum í að sækja vatn geta börnin sótt skóla!
Á heimasíðunni http://gjofsemgefur.is/ má sjá fleiri gjafabréf sem fólk getur keypt handa bágstöddum.