Í dag var hátíðisdagur í Síðuskóla þegar fulltrúi Landverndar Guðrún Schmidt afhenti skólanum Grænfánann í áttunda skiptið. Síðuskóli hefur verið Grænfánaskóli síðan 2006 og vorið 2020 var stefnan að fá fánann en vegna samkomutakmarkana var ákveðið að fresta því. Á þessu skólaári hefur ekki verið hægt að koma saman innandyra með alla nemendur skólans og var því ákveðið að blása til hátíðar utandyra og ekki spillti veðrið fyrir. Þema skólans fyrir umsókn um fánann var lýðheilsa og var heildarútkoma úttektarinnar eftirfarandi:
Síðuskóli var með víðtæk markmið í tengslum við lýðheilsu og úrgang og fann fjölbreyttar leiðir til þess að vinna að þeim. Starfsfólk í grænfánanefnd og verkefnastjóri eru áhugasöm og kraftmikil og greinilegt að verkefnið nær að valdefla nemendur. Í Síðuskóla er unnið flott starf í menntun til sjálfbærni og hvetjum við ykkur til áframhaldandi góðra verka. Þið hafið náð þeim góða árangri að fá grænfánann afhentan í 8. sinn. Innilega til hamingju með það!