Bókaverðlaun barnanna 2025

Í febrúar og mars er börnum á aldrinum 6-12 ára boðið að kjósa uppáhalds barnabækur ársins. Kosningin fer fram á almennings- og skólabókasöfnum um allt land og geta þau valið eina til þrjár barna og/eða unglingabækur sem komu út á síðasta ári á íslensku sem þeim finnast skemmtilegastar, áhugaverðastar eða bestar af hvaða ástæðu sem er. 
 
Amtsbókasafnið á Akureyri hefur haldið utan um kosninguna fyrir grunnskólana í bænum, komið kjörseðlunum til skila, en jafnframt dregið út einn heppinn í hverjum skóla sem hlýtur bók að gjöf. Í ár var Aþena í 4. bekk sú heppna og fékk bókina Fía sól í logandi vandræðum eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur að gjöf.
 
Sú bók sem var vinsælust í Síðuskóla var Orri óstöðvandi, heimsfrægur á Íslandi. Í öðru sæti var Hundmann og Iceguys voru í þriðja sæti.