Laugardaginn 20. febrúar kl. 12-17 verður samsýningin Sköpun bernskunnar 2021 opnuð í Listasafninu á Akureyri. Þetta er áttunda sýningin undir heitinu Sköpun bernskunnar. Hún er sett upp sem hluti af safnfræðslu, með það markmið að gera sýnilegt og örva, skapandi starf barna á aldrinum fimm til sextán ára. Þátttakendur hverju sinni eru skólabörn og starfandi myndlistarmenn. Þátttakendurnir vinna verk sem falla að þema sýningarinnar, sem að þessu sinni er Gróður jarðar. Kl. 15-16 verður boðið upp á listsmiðju fyrir börn tengda sýningunni.
Myndlistarmennirnir sem boðin var þátttaka í ár eru Eggert Pétursson og Guðbjörg Ringsted. Þau eru bæði landsþekkt fyrir málverk sín þar sem blóm og jurtir eru uppistaðan. Skólarnir sem taka þátt að þessu sinni eru leikskólinn Iðavellir og grunnskólarnir Glerárskóli, Síðuskóli og Giljaskóli, sem og Minjasafnið á Akureyri / Leikfangahúsið
Leikskólabörnin vinna sín verk á Listasafninu undir handleiðslu Guðbjargar Ringsted og Guðrúnar Pálínu Guðmundsdóttur, fræðslufulltrúa og sýningarstjóra. Myndmenntakennarar grunnskólanna sem taka þátt stýra þeirri vinnu sem unnin er sérstaklega fyrir sýninguna, í samstarfi við nemendur.
Sýningarstjóri: Guðrún Pálína Guðmundsdóttir.
Athugið að engin formleg opnun verður en frítt verður inn á opnunardaginn.