Nýtt leiksvæði við Síðuskóla vígt í morgun

Í morgun var nýtt leiksvæði við Síðuskóla vígt. Fjölmenni var við athöfnina og ásamt nemendum og starfsfólki var fjöldi góðra gesta viðstaddur. Ólöf Inga skólastjóri stýrði dagskránni sem hófst á því að Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri flutti ávarp. Hún talaði til nemenda og óskaði þeim til hamingju um leið og hún bað þá að ganga vel um svæðið svo hægt væri að njóta þess í komandi framtíð. Því næst var skólasöngur Síðuskóla sunginn, forsöngvarar voru nokkrir nemendur úr 6. bekk. Dagskránni lauk á því að Ólöf Inga fékk til sín Evu Wium Elísdóttur fyrrverandi nemanda Síðuskóla. Á sínum tíma var hún dugleg að hvetja til þess að við skólann kæmi körfuboltavöllur. Eva er núna lykilleikmaður í körfuknattleiksliði Þórs og er í A landsliðinu. Það var því við hæfi að fá Evu til að koma og taka formlega fyrstu körfuna á nýja körfuboltavellinum.

Skipulagning skólalóðarinnar er búinn að taka mörg ár og fengu nemendur að koma með tillögur að leiktækjum og var unnið út frá þeim hugmyndum við hönnunina og fengu nemendur nánast allt sem þeir óskuðu sér. Góð samvinna var við hönnuði og starfsfólk Umhverfis- og mannvirkjasviðs og var tekið tillit til óska og samvinnan frábær í alla staði. Einnig má nefna að stjórn foreldra- og kennarafélags Síðuskóla FOKS, var mjög dugleg við að aðstoða við alla hugmyndavinnu og framkvæmd. Þetta samvinnuverkefni er til fyrirmyndar og útkoman eins og best verður á kosið.

 

Hér má sjá myndir frá því í morgun.