Jólabréf 2008

Foreldrar og nemendur í Síðuskóla Aðventan er gengin í garð og  jólin nálgast. Skólinn hefur verið skreyttur með fyrra móti þetta skólaár og með náminu eru nemendur að vinna að ýmsum verkefnum tengdum jólunum. Verkefnin eru breytileg  eftir árgöngum og sem dæmi má nefna lestur jólabóka á bókasafninu, 6. bekkur æfir jólaleikrit, skautaferðir, kaffihús heimsótt og  aðventuferðir í Minjasafns- og Glerárkirkju.

Foreldrar og nemendur í Síðuskóla

Aðventan er gengin í garð og  jólin nálgast. Skólinn hefur verið skreyttur með fyrra móti þetta skólaár og með náminu eru nemendur að vinna að ýmsum verkefnum tengdum jólunum. Verkefnin eru breytileg  eftir árgöngum og sem dæmi má nefna lestur jólabóka á bókasafninu, 6. bekkur æfir jólaleikrit, skautaferðir, kaffihús heimsótt og  aðventuferðir í Minjasafns- og Glerárkirkju.

Litlu jólin

Litlu jólin eru 19. desember. Nemendum er skipt í tvo hópa. Fyrri hópurinn kemur klukkan 8:30 og sá seinni klukkan 10:30. Niðurröðun bekkja má sjá á heimasíðunni. Litlu jólin eru með svipuðu sniði og undanfarin ár. Nemendur hlusta á jólahugvekju og  horfa á jólaleikrit 6. bekkjar. Í íþróttasalnum dönsum við í kringum jólatréð. Nemendur fara svo með umsjónarkennurum í bekkjarstofur og eiga þar góða stund saman. Jólasveinar koma í stofurnar með glaðning handa þeim.

Þróunarstarf

 Þróunarstarf þetta skólaár er að mestu leyti fólgið í því að þróa áfram SMT og Byrjendalæsi. Þessi verkefni ganga vel og í haust hófum við störf við nýtt þróunarverkefni sem tengist umhverfisstefnu skólans. Í nokkur ár hefur verið unnið að þessari stefnumótun en betur má ef duga skal. Þess vegna var ákveðið að ráðast í þróunarverkefnið Skóli fyrir framtíðina-grænt áfram. Í tengslum við það vinnum við nú við verkefni heitið  Geta til sjálfbærni – menntun til aðgerða (GETU). Markmið þess er að efla skilning og umræður um menntun til sjálfbærrar þróunar og leita leiða fyrir íslenska skóla sem vilja leggja áherslu á hana í sínu starfi. Verkefnið byggist á samstarfi rannsóknarhóps GETU og skóla (á öllum skólastigum) sem taka þátt í verkefninu. Markmið okkar er að efla þekkingu kennara á sjálfbærri þróun og umhverfismennt og leita svara við spurningunni: Hvers konar menntun vísar veginn að sjálfbærni?

Annað nýtt þróunarverkefni sem fór af stað í vetur og er samstarfsverkefni grunnskólanna á Akureyri ber yfirskriftina Fjölbreytt einstaklingsmiðaða námsmat. Eitt helsta markmiðið með þessu verkefni er að leggja grunn að frekari þróun námsmats í hverjum grunnskóla á Akureyri.

Skólinn hefst aftur eftir jólaleyfi þriðjudaginn 6. janúar klukkan 8:00.

Viðtalsdagur í Síðuskóla er 20. janúar 2009.

Starfsfólk Síðuskóla óskar nemendum og foreldrum gleðilegra jóla og nýs árs og þakkar samstarfið á árinu sem er að líða.