Leitin að Grenndargralinu stendur elstu nemendum grunnskóla til boða (8.-10. bekk). Takmark þátttakenda er að finna bikar, hið svokallaða Grenndargral, sem búið er að koma fyrir á vissum stað á Akureyri. Leitin að Gralinu tekur 10 vikur og hún fer þannig fram að nemendur, ýmist einir eða tveir saman, fá eina þraut (verkefni) til lausnar í viku hverri. Þraut sem tengist sögu eða menningu Akureyrar og/eða Eyjafjarðar.Við lausn hverrar þrautar fá nemendur bókstaf. Markmiðið er að safna að lágmarki tíu bókstöfum sem fást við úrlausn þrautanna sem þeir svo nota til að mynda ákveðið orð. Orðið er nokkurs konar lykilorð og er þekkt úr sögu heimabyggðar. Þegar krakkarnir ná að raða saman bókstöfunum og mynda sjálft lykilorðið öðlast þeir rétt til að hefja leit að Grenndargralinu. Til þess fá þeir eina lokavísbendingu sem vísar þeim á fundarstaðinn. Sá eða þeir sem finna Gralið standa uppi sem sigurvegarar. Þeir fá Gralið afhent til varðveislu í eitt ár við hátíðlega athöfn á sal þess skóla sem sigurvegararnir koma úr. Þá fá þeir verðlaunapeninga til eignar. Allir sem klára þrautirnar tíu fá viðurkenningarskjal fyrir góða frammistöðu eftir langa og stranga leit (tekið af vefnum www.grenndargral.is).