Fræðslu- og lýðheilsusvið Akureyrarbæjar veitti á dögunum viðurkenningar fyrir framúrskarandi starf í skólum bæjarins. Markmiðið með viðurkenningunum er að benda á og lyfta upp því frábæra starfi sem fram fer í skólunum og hvetja til góðra verka.
Frá okkur í Síðuskóla hlutu þær Ólöf Inga skólastjóri og Victoria Irkha nemandi í 9. bekk viðurkenningu. Meðal þess sem nefnt var um Ólöfu er að gott sé að leita til hennar, hún hafi skapað notalegt umhverfi fyrir nemendur og starfsfólk og byggt upp á faglegan og metnaðarfullan hátt sérdeild skólans með sínu starfsfólki. Í umsögn Victoriu sem kom í skólann frá Úkraínu haustið 2023 kom fram að hún sé dugleg, sýni mikinn metnað í námi, sá ávallt jákvæð og hafi lagt sig fram og sýnt mikinn áhuga á íslenskunámi og hafi á stuttum tíma náð afar góðum tökum á íslensku.
Við óskum þeim til hamingju og erum afskaplega stolt af því að hafa þær í okkar frábæra hópi.