Í Síðuskóla sýnum við ábyrgð, virðingu og vináttu
Í dag, 16. september, fögnum við degi íslenskrar náttúru. Nemendur unnu alls kyns verkefni á uppbrotsdegi að því tilefni. Eftir hádegi var safnast á sal til að taka við 10. grænfánanum frá Borghildi Gunnarsdóttur fulltrúa Landverndar. Þetta er stór áfangi því nú hefur Síðuskóli verið Grænfánaskóli í meira en 20 ár og var meðal fyrstu skólunum á Íslandi til að taka upp stefnu og vinnu Grænfánaskólanna. Og má segja að skólastarfið litist á margan hátt af náttúruvernd og góðum áherslum sem hlúir að nærsamfélaginu og umhverfi okkar.
Grænfáninn er umhverfisviðurkenning fyrir skóla og nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Hér í skólanum höfum við markvisst unnið í anda okkar umhverfisstefnu og aukið umhverfisvitund til að ná því marki að fá að flagga nýjum fána á tveggja ára fresti. Við sýnum að okkur er ekki sama- við viljum leggja okkar af mörkum til að gera skólann og samfélagið grænna og betra.
Það er ekki sjálfgefið að fá fánann heldur verður að vinna að því til að fá hann endurnýjaðan. Við höfum m.a. flokkað og haldið flokkunarkeppni, erum með moltugerð fyrir lífrænan úrgang, unnið að því að draga úr orkunotkun, tekið þátt í verkefninu Gengið í skólann og dregið verulega úr matarsóun. Náttúrufræðingur Síðuskóla á svo sinn fasta sess hér í skólastarfinu.
Þetta er nefnilega ekki bara fáni- heldur tákn um samvinnu, ábyrgð og framtíðarsýn. Við lifum á Íslandi einstöku og fallegu landi. Við erum með hreina náttúru, ferskt vatn og hreint loft en þessi verðmæti eru ekki sjálfsögð. Þess vegna er svo mikilvægt að við lærum að bera virðingu fyrir umhverfinu.
Einkunnarorð Síðuskóla eru ábyrgð, virðing og vinátta en öll þessi orð tengjast umhverfismennt á einhvern hátt.
Nemendur og starfsfólk Síðuskóla fóru í gönguferð í dag. Lagt var af stað frá bílastæði neðan við Fálkafell og gengið yfir í Kjarnaskóg. Lengi hefur staðið til að fara í þessa ferð og loksins tókst það!
Veðrið lék við okkur, sólin skein og stemmingin var frábær. Virkilega góður dagur hjá okkur í dag.
Hér má skoða myndir úr gönguferðinni.
Göngum í skólann verkefnið hófst í dag en markmið þess er að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni sína til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni.
Í tilefni þess gengu nemendur og starfsfólk Síðuskóla skólahringinn.